14.3.2007 | 11:41
Að fjármagna einkaneysluna
Ég verð að vitna í Svein Hannesson, framkvæmdarstjóra SA, vegna umræðu um álver og erlenda frjárfesta. Einhvern veginn virðist ekki tekið heildarsamhengið á eyðslu og öflunar tekna þegar fólk er að ræða um virkjanir og álver.
"Að vonum fögnuðu margir ákvörðun um byggingu álvers í Straumsvík og ekki aðeins Hafnfirðingar heldur flestir Íslendingar. Ef til vill hefði verið rétt að greiða atkvæði um staðsetningu þess þá. Nú er það fjörutíu árum of seint. Álverið var ekki stórt í upphafi. Afkastagetan var aðeins 33.000 tonn á ári (120 ker) þegar það tók til starfa 1969 en það markaði á margan hátt nýja tíma í íslensku atvinnulífi. Að baki voru miklir erfiðleikar. Síldin var horfin, verðfall varð á sjávarafurðum og efnahagur þjóðarinnar var í rúst. Gengi krónunnar var fellt um tugi prósenta ár eftir ár og atvinnuleysi var mikið. Á þessum árum flúðu Íslendingar í hópum bæði til Svíþjóðar og Ástralíu í leit að atvinnu og mannsæmandi lífskjörum.
Ráðamenn þjóðarinnar sáu að hvorki var skynsamlegt né gerlegt fyrir þjóðina að byggja til framtíðar alfarið á fiskveiðum og vinnslu. Íslendingar yrðu að iðnvæðast og leita eftir erlendri fjárfestingu og tækniþekkingu til þess að nýta aðra helstu auðlind sína, orkuna. Íslendingar gerðust aðilar að EFTA 1970 og gerðu skömmu síðar fríverslunarsamning við ESB (eða Efnahagsbandalag Evrópu sem þá var). Næstu tímamót í sögu þjóðarinnar í efnahagslegu tilliti er mínu mati aðildin að EES-samningnum sem tók gildi 1994 og hefur á rúmum áratug gerbreytt íslensku efnahagslífi og lífskjörum þjóðarinnar.
Það voru margir, en alls ekki allir, hlynntir byggingu álversins í Straumsvík. Andstæðingarnir gáfu fyrirtækinu nafnið þrælakista auðvaldsins. Sömu aðilar börðust á hæl og hnakka gegn aðild Íslands að EFTA og fríverslunarsamningum við ESB. Enn var þetta fólk við sama heygarðshornið þegar kom að EES-samningnum. Flestir þeir sem ákafast börðust gegn þeim samningi hafa síðan reynt að gleyma andstöðu sinni. Nokkrir hafa þó verið menn til að viðurkenna að þeir höfðu rangt fyrir sér og nú eru það eru eiginlega bara nokkrir hálfruglaðir gamlir skarfar sem enn eru á móti EES-samningnum."
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.