16.6.2007 | 23:09
Hring meðfram strönd
Af hverju byggja Reykvíkingar ekki hraðbraut meðfram ströndinni og gera þannig hring utan um höfuðborgina í stað þess að leiða alla umferð gegnum bæinn með misjöfnum gatnamótum? Mig minnir að þetta hafi verið lagt fram fyrir áratug og drepið niður af umhverfissinnum sem vildu hlífa þeirri litlu strandlengju sem eftir er kringum borgina. Held að Íslendingar eigi nóga strandlengju, sennilega lengstu strandlengju á hvern íbúa í veröldinni og þó litlum bita yrði fórnað fyrir betri umferð þá syrgi ég það ekki. Það er "Trade off" í öllu sem við gerum til framfara og fólk verður að leggja á vogarskálarnar ávinning og kostnað sem réttlætir að framkvæma hluti eða láta ógert. Mín einlæga skoðun er sú að við látum landið þjóna okkur sem mest án þess að eyðileggja fyrir komandi kynslóðir en ég get ekki séð að þjóðin þurfi á strandlengju kringum borgina sína á kostnað öryggis í umferðinni. Öll sjónarmið eru góð og gild en stundum finnst mér rómantíkin fara offari á kostnað hagræðis?
Ekki spurning um annaðhvort eða, segir Gísli Marteinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Veistu að ég hefi oft hugsað hið sama, sé ekki betur en það sé það eina sem duga kann.
kv.gmaria.
Guðrún María Óskarsdóttir., 16.6.2007 kl. 23:32
Heill og sæll K Zeta, og þakka þér fyrir bloggið.
Ég skil hvað þú ert að fara en verð að segja að ég sjálfur hefi ansi miklar efasemdir um slíkan hring. Einn aðalkostur Reykjavíkur umfram aðrar borgir t.d. í Evrópu og Bandaríkjunum er sá að hún er lítil, þó stór í sér, og umvafin sjó með miklu og góðu útsýni á umtalsverðum hluta umgjörðar sinnar. Ekki finnst mér vænlegt að tala um að hlutfallslega eigi Íslendingar meira af strandlengju en aðrir (t.d. er hin mikla strandlenga í kringum Melrakkasléttu ekki sérstaklega eftirsóknarverð), því það mikilvæga fyrir Reykjavík sem borg og einnig fyrir lífsgæði borgarbúa og gesta hennar er, gæti ég best trúað, þessi afar sjaldgæfi samtvinnungur "stór"-borgar og strandlengju. Ekki eru margar borgir sem bjóða upp á slíkt, þótt víðar væri leitað. Mikil og stór umferðaræð við sjóinn tel ég að myndi einmitt koma frekar í veg fyrir að þess kosts verði notið eins mikið og er í dag - tek það fram að samt er umferðarþunginn nægur þar, eins og t.d. á Sæbrautinni, en afar góðir göngustígar meðfram sjónum bjarga því sem bjargað verður. Tel ég því að nú þegar sé 'hraðbraut meðfram ströndinni' að vissu leyti, en þú ert eflaust að tala um eitthvað mun stærra.
Þá ber að nefna að uppástunga þín er síður ný af nálinni. Aðrar borgir hafa reynt hana með misjöfnum árangri. Sem dæmi má nefna t.d. Baltimore, Maryland, þar sem hringbrautin stóra er kragi lágra lífsgæða og fátæktar að mörgu leyti. Annað vænlegra dæmi sökum nálægðar við vatn og útsýni, er Buffaló í New York ríki Bandaríkjanna. Aðalumferðaræðar borgarinnar lágu í geislamynstri út frá miðju borgarinnar hér fyrrum, en nútímavæðing varð til þess að lausn sú er þú stingur upp á var valin. Sett var því upp á þennan hátt Interstate 190 í hring um borgina, sem þó á einungis eina hlið að Lake Erie og hinni fögru Niagara á. Brautin hefir verið til ama allar götur síðan enda ekkert rými til útivistar á milli vatns og hraðbrautar og er alls ekki vistvænt í nágrenni akbrautarinnar, af augljósum ástæðum (aukin mengun, og lífsgæði þar af leiðandi minni, og þangað leita nú aðallega efnaminni fjölskyldur, sem þjást hlutfallslega meira af kvillum tengdum mengun). Nú er að sjálfsögðu einhver stærðarmunur á umferðarþunga þar og hér, en hlutfallslega yrðu áhrifin svipuð, að mínu mati.
Ég myndi sjálfur greiða atkvæði með umferðaræðum stórum sem ganga á nokkrum stöðum inn í miðja borg, eins og t.d. Miklabrautin gerir, en leyfa smærri götum að kvíslast út frá þeim, í líkingu við nokkra trjástofna og trjágreinar, sem skipulagsfræðingar tala oft um að sé talsvert náttúrulegra, skipulegra og ekki síður skilvirkara kerfi, svipað því sem nú er að nokkru leyti til staðar (sem þarf vissulega að laga, þar er ég sammála). Ég er á þeirri skoðun að borgarfulltrúinn og formaður umhverfisráðs séu á réttri leið, og eru ósammála eingöngu um smáatriði í raun og veru - þeir sjái mikilvægi þess að varðveita jaðarjafnvægi borgarinnar. Ég er þó hjartanlega sammála niðurstöðu þinni að vega verði hlutina og meta án öfga, en bæti því þó við að horfa þurfi bæði á 'rómantíkina' eins og þú segir, og 'hagræðið', því mannskepnan er jú gerð úr hvoru tveggja, og huga þurfi því að jafnvægi þar á milli.
Með kærri kveðju, Benedikt.
Benedikt Halldórsson (IP-tala skráð) 17.6.2007 kl. 01:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.